The Telephone

Sviðssetning
Akureyrarvaka
Ópera Skagafjarðar

Sýningarstaður
Iðnó

Frumsýning
4. september 2009

Tegund verks
Ópera

The Telephone eftir Gian Carlo Menotti er ópera í einum þætti sem frumsýnd var árið 1947 á Broadway, New York. Óperan hefst heima hjá Lucy, rússneskri konu. Lucy finnst ekkert skemmtilegra en að tala í símann og er háð því að tala í hann. Hún á kærasta, Ben sem er ríkur flugmaður. Óperan er ástarþríhyrningur Lucy, Ben og símans. Í óperunni er Ben alltaf að reyna að ná sambandi við Lucy en gengur illa þar sem hún er í símanum, hann vill spyrja hana mikilvægrar spurningar. Þetta er létt og skemmtileg ópera sem er full af gríni, hlátri og ást.

Óperan er flutt á ensku.

Höfundur
Gian Carlo Menotti 

Leikstjórn
Aðalsteinn Bergdal

Söngvarar
Alexandra Chernyshova
Michael Jón Clarke

Píanóleikari
Daníel Þorsteinsson

– – – – – –

Alexandra Chernyshova er fædd í Kiev, Úkraínu árið 1979. Hún lauk tónlistarskóla, píanónámi, árið 1993. Þaðan fór hún í söngnám í tónlistarháskólanum  Glier í Kíev, því námi lauk árið 1998. 1997 söng Alexandra sitt fyrsta  aðalhlutverk í óperunni í Kiev, Ivasik Telesik(strák) þá 18 ára gömul,  í operuni Zerbakov. Frá árinu 1998 til 2000 söng hún sem einsöngvari með Úkraínsku sinfóníuhljómsveitinni í útvarpi í Kiev. Í apríl, árið 2002, var Alexandra valin besta nýja óperuröddin í keppninni “Nýtt nafn í Úkraínu”. Síðar það ár tók hún þátt í alþjóðlegri keppni óperusöngvara í Grikklandi, Rhodes og hafnaði þar í fjórða sæti, yngst keppenda. Frá árinu 1999 til 2003 stundaði Alexandra söngnám í söng akademíunni Nezdanova, Odessu / Úkraínu, kennari hennar þar og um leið yfirkennari söngdeildar var prófessor Galina Polivanova. Á þessum árum hefur hún sungið m.a. í óperustúdíóinu í Odessa með sinfóníuhljómsveit. Frá janúar 2003 var Alexandra fastráðin sem einsöngvari í óperunni í Kiev. Samhliða því starfið hún sem einsöngvari með frægum landskarlakór í Úkraínu, Boyan.

Í lok október 2003 fluttist Alexandra til Íslands. Alexandra hefur haldið rúmlega þrjátíu einsöngstónleika hér á Íslandi, sungið með Karlakórunum Heimi og Hreim, gaf út sinn fyrsta geisladisk árið 2006. Síðar það ár stofnaði hún Óperu Skagafjarðar sem setti síðan upp óperuna La Traviata 2007/2008, Alexandra söng hlutverk Violettu. Ópera Skagafjarðar frumsýndi Rigoletto 21. maí í Skagafirði og er líklegt að fleiri sýningar verði í haust. Ópera Skagafjarðar hefur gefið út tvo geisladiska, annars vegar tónleika útgáfu með völdum lögum úr La Traviata og hins vegar perlur úr Rigoletto.

Alexandra er listarænn stjórnandi Óperu Skagafjarðar og kórstjóri óperukórsins. Alexandra stofnaði Söngskóla Alexöndru í byrjun árs 2008, skólinn er starfræktur í Skagafirði og eru 35 nemendur í söng og/eða píanónámi. Söngskóli Alexöndru er í samvinnuverkefni með tónlistarskólum Austur og Vestur Húnavatnssýslu um verkefnið „Draumaraddir norðursins“, Alexandra er listrænn stjórnandi verkefnisins og kórstjóri Stúlknakórs Norðurlands vestra. Alexandra gaf út í vor geisladiskinn „Draumur“, romantískt lög eftir Sergei Rachmaninov er hann annar geisladiskur Alexöndru. Jónas Ingimundarson er undirleikari á diskinum. Árni Bergmann þýddi ljóðin á disknum yfir á íslensku. Alexandra fékk úthlutað listamannalaunum í sex mánuði á þessu ári.

Michael Jón Clarke hefur starfað á Akureyri um 35 ára skeið sem fiðlu-og söngkennari, kór- og hljómsveitarstjóri.  Hann stundaði fiðlu- og söngnám til graduate prófs við Trinity tónlistarháskólann í London og framhaldsnám við háskólann í Suður-Illinois í Bandaríkjunum.  Árið 1990 stundaði hann söngnám við Royal Northern College of Music hjá Ryland Davies og lauk Postgraduate prófi úr óperudeild skólans 1991.

Michael var fyrsti kennari á Íslandi til að innleiða Suzuki kennslu sem hann lærði hjá John Kendall í Southern Illinois University í Bandaríkjunum.  Michael hefur verið fenginn til að kenna á fjöldamörgum námskeiðum í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi.

Michael söng aðalhlutverk í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmína Burana, hefur sungið fjöldamörg önnur óperuhlutverk.  Hann frumflutti verk Ólivers Kentish “Mitt fólk” með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói undir stjórn Osmo Vänska.
Michael söng  baritón einsöngshlutverk í sálumessu Durufflé með  Mótettukór Hallgrímskirkju sem var flutt víðsvegar í Evrópu og gefið svo út á geisladisk af Thorofon.

Michael hefur verið einsöngvari hjá fjöldamörgum kórum, haldið einsöngstónleika víða hér heima og erlendis, sungið inn á marga diska.  Hann hefur stjórnað fjölda kóra
Hann var listamaður Akureyrar 1997.

Daníel Þorsteinsson píanóleikari stundaði sitt tónlistarnám í Neskaupstað, við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsprófi lauk hann frá Sweelinck tónlistarháskólanum í Amsterdam árið 1993.
Daníel hefur komið fram víða um heim í einleik og samleik, auk þess sem hann hefur samið og útsett tónlist fyrir leikhús, söngvara og kóra, og leikið inná fjölda hljómdiska tónlist af ýmsu tagi.

Með CAPUT hópnum hefur Daníel komið víðsvegar fram m.a. á Norðurlöndunum, Ítalíu, í Kanada, Bandaríkjunum og Japan.
Daníel hefur í þrígang hlotið starfslaun frá Menntamálaráðuneytinu og árið 2000 var hann   útnefndur bæjarlistamaður á Akureyri.  Hann býr nú í Eyjafjarðarsveit, kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar, starfar sem organisti og kórstjóri við Laugalandsprestakall í Eyjafirði og er stjórnandi Kvennakórs Akureyrar.