Stormar og styrjaldir – Sturlunga Einars Kárasonar

Sviðssetning
Landnámssetur Íslands

Sýningarstaður
Landnámssetrið í Borgarnesi

Frumsýning
Haustið 2009

Tegund verks
Einleikur

Hér segir Einar Kárason efni Sturlungu á einfaldan og skýran hátt sem höfðar jafnt til þeirra sem þekkja söguna og hinna sem ekki þekkja söguna en hafa áhuga á kynnast einni dramatískustu atburðarás Íslandssögunnar.

Segja má að þetta form, að höfundur segi  efni bóka sinna, sé nýjung á okkar tímum þó líklegt sé að að þetta sé einmitt sá flutningsmáti sem höfundar eins og Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson viðhöfðu við að koma sínum verkum til skila hjá sínum samtímamönnum.

Einar hefur á undanförnum árum kafað undir yfirborð Sturlungu og sett söguefnið fram á nýstárlegan hátt í bókunum Óvinafagnaður og Ofsi. Þar lætur Einar persónur Sturlungu, sjónarvotta atburðanna og gerendur segja okkur frá í fyrstu persónu. Með þessum stíl færir Einar okkur eins og inn í atburðarásina, varpar nýju ljósi á þau voðaverk sem framin voru. Við hittum fyrir fólkið sem ber ábyrgð á því hvernig fór og heyrum sjónarhorn þess, því allir hafa jú sínar ástæður. Þetta er svolítið eins og við séum að heyra um viðburði sem gerðust í gær, hlusta á viðtöl við fólkið sem var í hringiðu atburðanna. Einar hlaut Bókmenntaverðlaun 2009 fyrir Ofsa.

Í flutning sínum á Stormum og styrjöldum á Söguloftinu hverfur Einar frá þessum stíl bókanna en fer sjálfur í hlutverk sögumannsins sem segir frá á hlutlausan hátt rétt eins og forverar hans Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson hafa án efa gert á sínum tíma. Á tæpum tveimur tímum leiðir Einar okkur inn í heim Sturlungu – setur söguna fram á aðgengilega og ljósan hátt – þannig að þessi saga sem mörgum hefur þótt torlesin verður kristalsskýr.

Það er einsdæmi að höfundur flytji á þennan hátt, blaðalaust, efni bóka sem hann hefur skrifað. Þó líklegt sé að að þetta sé einmitt sá flutningsmáti sem höfundar eins og Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson viðhöfðu við að koma sínum verkum til skila hjá sínum samtímamönnum. A.m.k. hafa skinnhandritin ekki verið lesefni sem allur almenningur tók með sér í rúmið. Hér er Einar að feta í fótspor Sturlu og Snorra og þeirra samtímamanna.

Höfundur
Einar Kárason

Leikari í aðalhlutverki/Flytjandi
Einar Kárason