Fjalla-Eyvindur og Halla

Heiti verks
Fjalla-Eyvindur og Halla

Lengd verks
2:15

Tegund
Sviðsverk

Um verkið
Eitt magnaðasta verk íslenskra leikbókmennta í uppsetningu Stefans Metz, leikstjóra Eldraunarinnar

Uppsetning Stefans Metz á Eldrauninni eftir Arthur Miller hér í Þjóðleikhúsinu á liðnu leikári vakti mikla hrifningu og sýningin var tilnefnd til 11 Grímuverðlauna, meðal annars sem sýning ársins. Metz setti hér upp á sínum tíma Krítarhringinn í Kákasus, og hefur leikstýrt fjölda verka í leikhúsum víða um Evrópu.

Fjalla-Eyvindur er eitt þekktasta verk íslenskra leikbókmennta fyrr og síðar. Verkið var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1911. Eftir rómaða sýningu leikritsins árið eftir í Dagmar-leikhúsinu í Kaupmannahöfn barst hróður þess víða og var það sýnt á Norðurlöndunum, í Þýskalandi, Englandi, Rússlandi og Bandaríkjunum. Gerð var eftir því sænsk kvikmynd árið 1917.

Sögur af útilegumanninum Fjalla-Eyvindi og hinni stórlyndu ástkonu hans, Höllu, sem uppi voru á átjándu öld hafa lifað góðu lífi með íslensku þjóðinni allt fram á okkar daga. Leikrit Jóhanns Sigurjónssonar er átakamikið og grípandi, skrifað af næmum mannskilningi og býr yfir mikilli harmrænni dýpt.

Halla er efnuð ekkja sem ræður Eyvind til sín sem vinnumann. Þau verða ástfangin og þegar Eyvindur neyðist til að flýja til fjalla, vegna saka úr fortíðinni, ákveður Halla að fara með honum. Inni á hálendi Íslands bíður þeirra hatrömm barátta við hörð náttúruöfl, einsemd, útskúfun og ofsóknir. En ekki síður þurfa þau að glíma við eigin tilfinningar og takast á hvort við annað. Getur ást þeirra staðið af sér þessa þolraun?

Sígilt listaverk um hlutskipti fólks sem lifir í andstöðu við samfélag sitt og þorir í krafti ástarinnar að bjóða heiminum byrginn.

Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) er eitt af öndvegisskáldum þjóðarinnar. Eftir hann liggja ljóð, leikrit, smásögur og ævintýri. Þekktustu leikrit hans eru Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur.

Fjalla-Eyvindur var ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950 og var verkið á ný sýnt hér árið 1988 undir heitinu Fjalla-Eyvindur og kona hans. Leikfélag Reykjavíkur hefur þrívegis sett verkið á svið og sama á við um Leikfélag Akureyrar. Leikhópurinn Aldrei óstelandi sýndi verkið árið 2011, og það hefur einnig verið sett upp af áhugaleikfélögum.

„Væri hugrenningum hegnt fylltust fjöllin af útilegumönnum.“

Sviðssetning
Þjóðleikhúsið

Frumsýningardagur
26. mars, 2015

Frumsýningarstaður
Þjóðleikhúsið, Stóra sviðið

Leikskáld
Jóhann Sigurjónsson

Leikstjóri
Stefan Metz

Tónskáld
Elvar Geir Sævarsson

Hljóðmynd
Elvar Geir Sævarsson

Lýsing
Halldór Örn Óskarsson

Búningahönnuður
Sean Mackaoui

Leikmynd
Sean Mackaoui

Leikarar
Stefán Hallur Stefánsson, Steinn Ármann Magnússon, Sigurður Sigurjónsson, Oddur Júlíusson, Kristinn, Óli Haraldsson, Þórhallur Sigurðsson, Pálmi Gestsson

Leikkonur
Nína Dögg Filippusdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Esther Talía Casey, Tinna Gunnlaugsdóttir

Börn:
Agla Bríet Gísladóttir
Gríma Valsdóttir
Helena Clausen Heiðmundsdóttir
Hildur Clausen Heiðmundsdóttir

Youtube/Vimeo video

Vefsíða leikhóps/leikhúss eða aðrir tenglar
www.leikhusid.is