Svikarinn

Sviðsseting
Lab Loki

Sýningarstaður
Tjarnarbíó

Frumsýning
19. febrúar 2011

Tegund verks
Leiksýning

Verkið er einleikur, fluttur af Árna Pétri Guðjónssyni, en Rúnar Guðbrandsson leikstýrir. Þeir hafa í sameiningu unnið leikgerðina sem sækir innblástur m.a. til franska rithöfundarins Jean Genet og byggir einkum á leikverki hans Vinnukonunum (Les Bonnes).

Svikarinn er í senn harmrænt verk og spaugilegt, fullt af reiði og grimmd, freníum, fóbíum og frústrasjónum, – góðlátlegu gríni og ekki sérlega góðlátlegu. Óvægin árás og miskunnarlaus einlægni. Þetta er glíma leikarans við hlutverkið, – og glíma þeirra beggja við sjálfan sig. Engillinn glímir við djöfulinn, dýrlingurinn við glæpamanninn.

Þetta er pólýfónískur kór hins margklofna persónuleika. Kakófónía örvæntingarinnar og kyrrlátt eintal einsetumannsins. Draumur fangans. Kynórar ónanistans. Játningar iðrandi syndara. Rödd hrópandans í eyðimörkinni. Hinsta andvarp píslavottarins. Þetta er þjófurinn í skriftastólnum og skemmtikrafturinn í skerandi sviðsljósinu. Skrípamynd og altaristafla. Neonlýsing almenningssalernisins og ofbirta hreinsunareldsins.

Í óreiðunni allri er leikarinn sjálfur þungamiðja og útgangspunktur; sá sem leikur og sá sem leikið er á, sá sem kúgar og er kúgaður, sá sem svíkur og er svikinn. Genet voru „svikin“ ofarlega í huga og sem leikritahöfundur vildi hann svíkja leikarann, – nú er stund hefndarinnar runnin upp og leikarinn fær tækifæri til að svíkja Genet, – hlutverkið að svíkja höfund sinn, – tilgangurinn helgar meðalið og til þess að ná markmiðum sínum stelur leikarinn því sem honum sýnist frá þjófnum Jean Genet.

Höfundar
Árni Pétur Guðjónsson
Rúnar Guðbrandsson

Byggt á verkum
Jean Genet

Leikstjórn
Rúnar Guðbrandsson

Leikari í aðalhlutverki
Árni Pétur Guðjónsson

Leikmynd
Filippía I. Elísdóttir

Búningar
Filippía I. Elísdóttir

Lýsing
Garðar Borgþórsson

Tónlist/Hljóðmynd
Garðar Borgþórsson

 

RG

APG

labloki-2008