Svanasöngur

Sviðsseting
Íslenska óperan
Pars Pro Toto 

Sýningarstaður
Íslenska óperan

Frumsýning
4. febrúar 2011

Tegund verks
Ópera/dansverk

Ljóðatónlist Schuberts þykir ein mest hrífandi tónlist sem skrifuð hefur verið, og er hún reglulega flutt af söngvurum og píanóleikurum í tónleikasölum um allan heim. Sá minnst þekkti af þremur helstu ljóðaflokkum tónskáldsins er Svanasöngur (Schwanengesang), sem gefinn var út eftir andlát hans og þykir með fegurstu tónsmíðum rómantíkurinnar.

Schwanengesang, Svanasöngur, er eitt af því fyrsta sem gefið var út Schubert til heiðurs skömmu eftir dauða hans. Schubert hafði flust til bróður síns, Ferdinand, í Kettenbrückengasse 6 þar sem hann dvaldi síðustu mánuði ævi sinnar. Lögin samdi Schubert frá ágúst til október á dánarári sínu, en þau urðu hans síðasta verk. Hann var illa haldin af höfuðverkjum og öðrum líkamlegum einkennum og undrun sætir að honum skyldi takast að semja þetta afreksverk. Lögin gaf útgáfufyrirtækið Haslinger saman eftir dauða hans undir nafninu Svanasöngur til merkis um að þarna færi hans síðasta verk. Schubert  náði einungis að byrja á 10. sinfóníu sinni sem hann skyldi eftir ófullgerða.

Í lagaflokknum er Schubert enn að vinna með hverfulleika og óróa mannlegrar tilveru. Í skáldskapnum má finna tilfinningar sem sækja á okkur öll í lífinu eins og söknuð, uppgjöf, beiskju og þrá. Franz Schubert lést þann 18. nóvember árið 1828 aðeins 31 árs að aldri.

Íslenska óperan gengur nú til samstarfs við dansflokkinn Pars Pro Toto og færir Schubert-aðdáendum nýstárlega útfærslu á þessu þekkta tónverki hans, þar sem bandaríski danshöfundurinn Kennet Oberly sviðsetur verkið fyrir dansara, en hann hefur sviðsett mörg sérstök verk, þar á meðal Drakúla og Þyrnirós.

Það er einn færasti og reyndasti dansari Íslands sem dansar í verkinu; Lára Stefánsdóttir, sem um árabil hefur fært landsmönnum vönduð og framsækin dansverk sem dansari og danshöfundur, og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir dansverk sín.

Tónlistin er flutt af þeim Ágústi Ólafssyni baritónsöngvara og Gerrit Schuil píanóleikara, sem báðir eru íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnir, en þeir fluttu alla þrjá ljóðaflokka Schuberts; Malarastúlkuna fögru, Vetrarferðina og Svanasöng á Listahátíð í Reykjavík í fyrra við frábærar undirtektir. Gerrit hefur um árabil verið einn virtasti píanóleikari landsins og var áður listrænn stjórnandi við Íslensku óperuna, þar sem hann stígur nú aftur á svið eftir 11 ára hlé. Ágúst þarf vart að kynna, en hann hefur sungið mörg stór hlutverk við Íslensku óperuna á undanförnum árum og hlaut m.a. Grímuna árið 2010 sem söngvari ársins, fyrir hlutverk sitt sem Belcore í Ástardrykknum eftir Donizetti hjá Íslensku óperunni árið 2009.

Búningar eru í höndum eins fremsta búningahönnuðar landsins, Filippíu I. Elísdóttur, sem hefur margoft hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín í leikhúsi, en lýsingu hannar Magnús Arnar Sigurðarson.

Höfundur
Franz Schubert

Leikmynd
Kennet Oberly

Búningar
Filippía I. Elísdóttir

Lýsing
Magnús Arnar Sigurðarson

Tónlist
Franz Schubert

Söngur
Ágúst Ólafsson

Dansari
Lára Stefánsdóttir

Danshöfundur
Kennet Oberly

Píanó
Gerrit Schuil

Svanasongur1