NÚNA!

Heiti verks
NÚNA!

Lengd verks
Tvær klukkustundir og þrjátíu mínútur

Tegund
Sviðsverk

Um verkið
Ung og öflug leikskáld sameina krafta sína

„Komdu þér úr

mussunni, krútt!“

Í fyrravetur fékk Borgarleikhúsið sex ung leikskáld til að skrifa stutt verk um íslenskan samtíma. Þrjú þessara verka voru valin til sviðsetningar. Raddirnar í verkunum eru ólíkar en þau eiga það sameiginlegt að vera fersk og djörf og bregða upp áhugaverðri mynd af lífi Íslendinga í dag.

Skríddu

Hverjir hafa þörf fyrir sterkan leiðtoga? Vegna fjölda áskorana um að gera ekkert, að slyttast áfram þegnskyldulega og freðið, er einnig tekist á við: a) bekkpressur, b) skoðanakannanir, c) ráðleysi, d) yfirvald, e) undirlægjur og hið sárþjáða slytti í kjallaranum. Skríddu er sálfræðidrama um slyttið og fasistann innra með okkur öllum. Um eyrun sem vísa inn á við, augun sem spanna heilann, munninn sem þráir að þóknast og andlitið sem berar sig umheiminum.

Kristín Eiríksdóttir (1981) stundaði nám í myndlist við Listaháskóla Íslands og einnig í Kanada. Hún hefur gefið út ljóðabækurnar Kjötbæinn 2004, Húðlitu auðnina 2006 og Annarskonar sælu 2008. Einnig hafa ljóð og sögur eftir hana birst í ýmsum tímaritum hér heima og erlendis. Smásagnasafn Kristínar, Doris deyr, kom út árið 2010 og hlaut mikið lof.

Svona er það þá að vera þögnin í kórnum

Fésbókar-kynslóð nútímans birtist hér ljóslifandi á sviðinu. Innihaldslítið læk, eða dislæk, join eða share, hlæjandi kallar eða dúllan – mússímússí upphrópanir. Mikilvægt og nærgöngult leikrit þar sem velt er upp grundvallarspurningum um manninn í síbreytilegum heimi. Hver erum við og hvert stefnum við?

Salka Guðmundsdóttir (1981) lauk námi í þýðingarfræðum frá Háskóla Íslands, leiklist frá University of Wales, Aberyswyth og í skapandi skrifum frá University of Glasgow. Salka hefur þýtt leikrit, skáldsögur og fleira og hefur starfað undanfarin ár sem leiklistargagnrýnandi menningarþáttar Ríkisútvarpsins Víðsjár. Hún samdi leikritið Súldarsker árið 2011 og var tilnefnd til Grímuverðlauna sem leikskáld ársins.

Skúrinn á sléttunni

Sögusviðið er teppalagður bílskúr í smábæ í námunda við Las Vegas. Á veggnum er stór mynd af George W. Bush yngri og önnur af Ólafi Ragnari Grímssyni. Hér birtast Íslendingar í Bandaríkjunum sem eiga ættir að rekja til Grindavíkur. Sonur drykkfelldrar og grófyrtrar húsmóður er á leið í kynskiptaaðgerð.

Tyrfingur Tyrfingsson (1987) útskrifaðist úr námsbrautinni Fræði og framkvæmd við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og leggur stund á meistaranám í leikritun við Goldsmiths, University College of London. Leikrit hans Byrgið verður frumsýnt næsta haust.

Sviðssetning
Borgarleikhús

Frumsýningardagur
12. apríl, 2013

Frumsýningarstaður
Borgarleikhúsið, Litla svið

Leikskáld
Kristín Eiríksdóttir, Salka Guðmundsdóttir, Tyrfingur Tyrfingsson

Leikstjóri
Kristín Eysteinsdóttir

Tónskáld
Frank Hall

Hljóðmynd
Frank Hall

Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson

Búningahönnuður
Helga I. Stefánsdóttir

Leikmynd
Helga I. Stefánsdóttir

Leikarar
Sigurður Þór Óskarsson, Valur Freyr Einarsson

Leikkonur
Hanna María Karlsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir

Vefsíða leikhóps/leikhúss eða aðrir tenglar
www.borgarleikhus.is