Jesús litli

Jesús litli

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Litla svið

Frumsýning
20. nóvember 2009

Tegund verks
Leiksýning

Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig landið og Heródes er settur landsstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu kemur tilskipun frá honum um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástand?

image-6

Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt, en það er ekki síður átakanleg. Trúðarnir láta allt flakka, umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi, þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

image-7

Dauðasyndirnar voru án efa ein eftirminnilegasta sýningin á íslenskum leikhúsfjölum á síðasta ári. Þar fluttu trúðarnir dásamlegu hinn Guðdómlega gleðileik Dantes – og fóru frjálslega með. Sýningin hlaut sex tilnefningar til Grímunnar, Íslensku leiklistarverðlaunanna meðal annars sem sýning ársins. Nú snúa trúðarnir aftur og takast á við sjálft Jólaguðspjallið. Leikstjórinn Benedikt Erlingsson hefur hemil á trúðunum eftir bestu getu og söngkonan Kristjana Stefánsdóttir töfrar fram himneska tóna með hjálp trúðsins Bellu.

Höfundar
Benedikt Erlingsson
Bergur Þór Ingólfsson
Halldóra Geirharðsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir
Snorri Freyr Hilmarsson

Leikstjórn
Benedikt Erlingsson

Leikari í aðalhlutverki
Bergur Þór Ingólfsson

Leikkonur í aðalhlutverkum
Halldóra Geirharðsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir

Leikmynd
Snorri Freyr Hilmarsson

Búningar
Snorri Freyr Hilmarsson

Lýsing
Kjartan Þórisson

Tónlist
Kristjana Stefánsdóttir

Söngvarar
Bergur Þór Ingólfsson
Halldóra Geirharðsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir

image-8

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt  kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.