Íslandsklukkan

Íslandsklukkan

Sviðssetning
Þjóðleikhúsið

Sýningarstaður
Þjóðleikhúsið, Stóra sviðið

Frumsýning
22. apríl 2010

Tegund verks
Leiksýning

Stórbrotið skáldverk um sjálfsmynd lítillar þjóðar og sjálfstæði í glænýrri leikgerð. Afmælissýning Þjóðleikhússins, í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá opnun þess þann 20. apríl árið 1950. Íslandsklukkan var ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins og verkið hefur, jafnt á bók sem á sviði, notið gífurlegra vinsælda hjá íslensku þjóðinni. Svipmiklar persónur þess, á borð við Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arneus, hafa eignast sinn vissa stað í hjarta ótal Íslendinga af ólíkum kynslóðum. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú, á þetta stórvirki um tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir, brýnt erindi við okkur og kallar á að vera skoðað í nýju samhengi, á nýjan hátt.

Íslandsklukkan gerist á miklu niðurlægingarskeiði í sögu íslensku þjóðarinnar, alþýðan býr við fátækt og skort, þarf að þola hörku og vægðarleysi yfirvalda og landið logar af deilum valdamikilla hagsmunaaðila. En, eins og alltaf, þá elskar fólk og á sér vonir og drauma. Saga þjóðarinnar og dramatísk örlög einstaklinga tvinnast saman í sígildu verki um niðurlægingu og reisn, mótlæti, vonbrigði og hugrekki.

„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti“.

Höfundur leikgerðar
Benedikt Erlingsson

Byggt á skáldsögu eftir
Halldór Laxness

Leikstjórn
Benedikt Erlingsson

Leikarar í aðalhlutverkum
Björn Hlynur Haraldsson
Ingvar E. Sigurðsson

Leikkona í aðalhlutverki
Lilja Nótt Þórarinsdóttir

Leikarar í aukahlutverkum
Arnar Jónsson
Björn Thors
Jón Páll Eyjólfsson
Erlingur Gíslason
Kjartan Guðjónsson
Stefán Hallur Stefánsson
Ólafur Darri Ólafsson

Leikkonur í aukahlutverkum
Anna Kristín Arngrímsdóttir
Edda Arnljótsdóttir
Elva Ósk Ólafsdóttir
Guðrún Snæfríður Gísladóttir
Herdís Þorvaldsdóttir
Ilmur Kristjánsdóttir
Þórunn Lárusdóttir

Leikmynd
Finnur Arnar Arnarson

Búningar
Helga Björnsson

Lýsing
Halldór Örn Óskarsson
Lárus Björnsson

Tónlist
Eiríkur Stephensen
Hjörleifur Hjartarson

Söngvarar
Eiríkur Stephensen
Hjörleifur Hjartarson

Þórunn Lárusdóttir

Hljóðfæraleikarar
Eiríkur Stephensen
Hjörleifur Hjartarson

– – – – – –

Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og hefur því starfað í yfir hálfa öld. Um fjórar milljónir áhorfenda hafa sótt sýningar leikhússins frá upphafi. Starfsemi Þjóðleikhússins er fjármögnuð að þrem fjórðu hlutum með framlagi af fjárlögum, en einum fjórða með sjálfsaflafé. 

Leikið er á fjórum leiksviðum í Þjóðleikhúsinu, Stóra sviðinu með um 500 sæti í áhorfendasal, Leikhúsloftinu sem rúmar um 80 manns, Kúlunni í kjallara íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar að Lindargötu 7 með um 100 sæti, og í sömu byggingu er hið nýja leiksvið Kassinn, sem er með um 140 sæti.

Þjóðleikhúsið leggur áherslu á að efla íslenska leikritun með flutningi nýrra innlendra verka og kynna áhorfendum jafnframt það sem forvitnilegast er að gerast í erlendri leikritun. Einnig eru flutt sígild verk, barnaleikrit, söngleikir og óperur. 

Á hverju leikári starfa milli fjögur og fimm hundruð manns í Þjóðleikhúsinu.

Í hverri leiksýningu er fólgin mikil vinna. Samhliða leikæfingum og vinnu listrænna stjórnenda hverrar sýningar vinnur starfsfólk ólíkra deilda Þjóðleikhússins vikum saman að undirbúningi. Má þar nefna sviðsmenn, starfsfólk saumastofu, leikmunadeildar, hárgreiðslu- og förðunardeilda, ljósadeildar, hljóðdeildar og kynningar- og fræðsludeilda. 

Þjóðleikhúsið leggur metnað sinn í að bjóða áhorfendum leiklist í hæsta gæðaflokki.

Hlutverk Þjóðleikhússins er að:

•    Glæða áhuga landsmanna á leiklist og þeim listgreinum sem tengjast leiksviði með fjölbreyttu úrvali sýninga.

•    Örva innlenda leikritun og aðra höfundavinnu og stuðla að aukinni samvinnu sviðslistamanna.

•    Stuðla að framþróun í greininni með því að leggja áherslu á faglega úrvinnslu og listræna framsetningu.

•    Efla leiklistaruppeldi með framboði á sýningum sérstaklega ætluðum börnum og ungmennum.

•    Efna til umræðna og verkefna á sviði leiklistar í samvinnu við skóla, félagasamtök og stofnanir.

•    Miðla leiklist um landið með leikferðum og samvinnuverkefnum.