Heilabrot

Sviðssetning
Íslenski dansflokkurinn
Steinunn and Brian

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Nýja svið

Frumsýning
27. nóvember 2009

Tegund verks
Danssýning

Djammvika Íslenska dansflokksins stendur yfir dagana 25. til 28. nóvember.  Þetta er sannkölluð dansveisla þar sem frumflutt verða fjögur ný verk í vinnslu. Fyrsta kvöldið verða sýnd verkin Cardiac Strain eftir Tony Vezich og Shit eftir Kristján Ingimarsson. Annað kvöldið verða sýnd verkin Heilabrot eftir Brian Gerke og Kjúklingur í sauðagæru eftir Peter Anderson.

Með Djammviku er dansflokkurinn að gefa nýjum höfundum tækifæri til að vinna með flokknum og einnig er þetta vettvangur til að þróa og prófa nýja tækni og aðferðir við sköpunina. Mikil eftirspurn er eftir miðum á Djammviku og nú þegar er uppselt á þrjár sýningar af sex.

Tvíeykið Brian Gerke og Steinunn Ketilsdóttir hafa skapað og dansað saman síðan árið 2007 og hefur afrakstur þessa samstafs verið hnyttin og kaldhæðin verk, oft á tíðum skemmtilega ýkt en samt persónuleg. Persónurnar sem þau skapa eru fyndnar og kjánalegar á yfirborðinu, en þegar dýpra er kafið þá koma í ljós mannlegir brestir, hræðsla, óöryggi og einmannaleiki.

Brian og Steinunn hafa undanfarin 3 ár einvörðungu samið dúetta sem þau dansa í sjálf. Með verki sínu Heilabrot eru þau að taka skref í nýja átt þar sem þetta er í fyrsta sinn sem þau skapa verk fyrir aðra dansara og koma ekki sjálf fram.

Danshöfundar
Brian Gerke
Steinunn Ketilsdóttur

Búningar
Elín Edda Árnadóttir

Lýsing
Aðalsteinn Stefánsson

Dansarar
Aðalheiður Halldórsdóttir
Cameron Corbett
Katrín Johnson
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir

– – – – – –

Íslenski dansflokkurinn er nútímadansflokkur og hefur aðsetur í Borgarleikhúsinu. Hjá Íd starfa að venju á annan tug dansara í fullu starfi, fastráðnir, gestadansarar og dansarar á nemendasamningi, allir með þjálfun í klassískum dansi.  Þar að auki taka dansnemar sem stunda nám við dansbraut Listaháskóla Íslands þátt í starfsemi Íd.

Íslenski dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum Evrópu auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Dansflokkurinn hefur ferðast víða og stefnir á sýningarferðir til Kína, Frakklands, Hollands og Bandaríkjanna á árinu, auk þess að halda reglulega sýningar á Íslandi.