Flutningur skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum og aðdraganda hruns íslensku bankanna

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavík

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Nýja svið

Frumsýning
12. – 18. apríl 2010

Tegund verks
Upplestur

Skýrsla rannóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði var lesin upp í heild sinni af leikurum Borgarleikhússins, en allir starfmenn hússins tóku þátt í viðburðinum á einn eða annan hátt. Lesturinn hófst kl. 11.00 mánudaginn 12. apríl og lauk kl. 12.45 sunnudaginn 18. apríl. Lesturinn tók því um 146 klukkustundir.

Höfundar
Rannsóknarnefnd Alþingis;
Páll Hreinsson
Tryggvi Gunnarsson
Sigríður Benediktsdóttir

Ásamt öðrum sem að skýrslunni unnu

althingishus550

Rannsóknarskýrslan lesin í heild sinni

Þann 12. apríl kemur út skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins. Skýrslan verður viðamikil og líklegt er að fjölmiðlar muni túlka skýrsluna hver með sínu nefi. Starfsfólk Borgarleikhússins hefur ákveðið að lesa skýrsluna upp í heild sinni, en hún er um 2000 blaðsíður að lengd, og bjóða landsmönnum að hlýða á upplesturinn.

Listamenn munu ekki leggja mat á innihaldið né gera tilraun til að túlka skýrsluna með neinum hætti. Lesturinn hefst um leið og skýrslan hefur verið gefin út og mun lesturinn standa dag og nótt þar til skýrslan hefur öll verið lesin. Um 45 leikarar munu taka þátt í upplestrinum sem áætlað er að taki 3-5 sólarhringa.

Landsmönnum býðst að koma í Borgarleikhúsið og hlýða á skýrsluna að hluta eða í heild. Verður leikhúsið opið allan sólarhringinn meðan á lestrinum stendur en flutningnum verður einnig sjónvarpað á vef leikhússins. Borgarleikhúsið kappkostar að eiga í virku samtali við samfélagið og taka á brýnum samfélagsmálum. Frá bankahruni hefur leikhúsið tekið á málefnum líðandi stundar með ýmsum hætti.

Skýrslan

Skýrslunnar hefur verið beðið lengi og ljóst að margir binda vonir við að innihald hennar varpi ljósi á aðdraganda bankahrunsins í október 2008. Útgáfu skýrslunnar hefur ítrekað verið frestað og eru því margir orðnir óþreyjufullir. Margir hafa sagt að skýrslan sé ein sú mikilvægasta sem ráðist hefur verið í að semja frá stofnun lýðveldisins. Af fregnum að dæma er þetta viðamikil samantekt sem erfitt og tímafrekt verður fyrir almenna borgara að kynna sér í hörgul. Líklega munu hinir ýmsu aðilar, þ.á.m. fjölmiðlar, túlka innihaldið hver með sínum hætti.

Flutningur starfsfólks Borgarleikhússins

Starfsfólki Borgarleikhússins þótti við hæfi að bregðast við útgáfu skýrslunnar enda mikilvægt mál sem legið hefur á þjóðinni um langa hríð. Því var ákveðið að lesa skýrsluna fyrir opnum tjöldum á Nýja sviðinu. Leikarar hússins munu lesa skýrsluna með aðstoð annarra starfsmanna hússins. Þeir munu skipta sér í tveggja manna vaktir. Hver vakt les í 2-4 klukkustundir og skipta tveir leikarar með sér lestrinum hverja vakt. Lestrinum verður sjónvarpað beint  á netinu á heimasíðu leikhússins.

Skyrslan-JOISIG

Borgarleikhúsið og samfélagsmálin

Eitt helsta keppikefli Borgarleikhússins er að eiga í virku samtali við samfélagið sem það er sprottið úr. Íslenska þjóðin hefur beðið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis með eftirvæntingu, leikhúsið vill bregðast við því og leggja sitt af mörkum til þess að skýrslan verði aðgengileg öllum, með einföldum og hlutlausum hætti. Um leið er þessi flutningur táknrænn. Leikhúsið verður eins konar griðastaður þar sem fólk getur komið, hlustað á lesturinn og hugleitt efnið, innihaldið og orsakirnar .

Strax eftir hrun bankanna í lok ársins 2008 ákvað Borgarleikhúsið að vinna hratt sýningu sem fjallaði um þær hamfarir sem dunið höfðu yfir. Útkoman var leikritið Þú ert hér sem hlaut frábæra dóma og fjölda Grímutilnefninga. Áfram var haldið og í janúar sl. var frumsýnt leikritið Góðir Íslendingar en listrænir stjórnendur voru þeir sömu og í Þú ert hér. Þeirri sýningu hefur nú nýverið verið boðið á eina virtustu leiklistarhátið Evrópu í Wiesbaden. Fleiri verk Borgarleikhússins hafa endurspeglað með einhverjum hætti þá átakatíma sem þjóðin hefur upplifað á undanförnum misserum.