Hænuungarnir

Hænuungarnir

Sviðssetning
Þjóðleikhúsið

Sýningarstaður
Þjóðleikhúsið, Kassinn

Frumsýning
27. febrúar 2010

Tegund verks
Leiksýning

Bráðfyndið og ísmeygilegt verk eftir einn af okkar vinsælustu höfundum. Þegar einhverju er stolið úr geymslunni manns í sameigninni er ekki nema eðlilegt að maður vilji vita hver þjófurinn er. Það er að minnsta kosti skoðun jazzáhugamannsins Sigurhans. Og þótt það hafi ekki verið nema nokkrir kjúklingar á tilboðsverði sem hurfu úr frystikistunni finnst Sigurhans ástæða til að halda aukahúsfund. Enda telur hann sig vita hverjir voru að verki.

Hænuungarnir eru annað leikrit Braga Ólafssonar fyrir leiksvið. Hið fyrra, Belgíska Kongó, með Eggerti Þorleifssyni í aðalhlutverki og í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var sýnt hundrað sinnum í Borgarleikhúsinu.

„Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpamönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni.“

Höfundur
Bragi Ólafsson

Leikstjóri
Stefán Jónsson

Leikari í aðalhlutverki
Eggert Þorleifsson

Leikkona í aðalhlutverki
Ragnheiður Steindórsdóttir

Leikarar í aukahlutverkum
Friðrik Friðriksson
Pálmi Gestsson

Leikkonur í aukahlutverkum
Kristbjörg Kjeld
Vigdís Hrefna Pálsdóttir

Leikmynd
Börkur Jónsson 

Búningar
Ríkey Kristjánsdóttir

Lýsing
Halldór Örn Óskarsson

Hljóðmynd
Tómas Freyr Hjaltason

– – – – – –

Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og hefur því starfað í yfir hálfa öld. Um fjórar milljónir áhorfenda hafa sótt sýningar leikhússins frá upphafi. Starfsemi Þjóðleikhússins er fjármögnuð að þrem fjórðu hlutum með framlagi af fjárlögum, en einum fjórða með sjálfsaflafé. 

Leikið er á fjórum leiksviðum í Þjóðleikhúsinu, Stóra sviðinu með um 500 sæti í áhorfendasal, Leikhúsloftinu sem rúmar um 80 manns, Kúlunni í kjallara íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar að Lindargötu 7 með um 100 sæti, og í sömu byggingu er hið nýja leiksvið Kassinn, sem er með um 140 sæti.

Þjóðleikhúsið leggur áherslu á að efla íslenska leikritun með flutningi nýrra innlendra verka og kynna áhorfendum jafnframt það sem forvitnilegast er að gerast í erlendri leikritun. Einnig eru flutt sígild verk, barnaleikrit, söngleikir og óperur. 

Á hverju leikári starfa milli fjögur og fimm hundruð manns í Þjóðleikhúsinu.

Í hverri leiksýningu er fólgin mikil vinna. Samhliða leikæfingum og vinnu listrænna stjórnenda hverrar sýningar vinnur starfsfólk ólíkra deilda Þjóðleikhússins vikum saman að undirbúningi. Má þar nefna sviðsmenn, starfsfólk saumastofu, leikmunadeildar, hárgreiðslu- og förðunardeilda, ljósadeildar, hljóðdeildar og kynningar- og fræðsludeilda. 

Þjóðleikhúsið leggur metnað sinn í að bjóða áhorfendum leiklist í hæsta gæðaflokki.

Hlutverk Þjóðleikhússins er að:

•    Glæða áhuga landsmanna á leiklist og þeim listgreinum sem tengjast leiksviði með fjölbreyttu úrvali sýninga.

•    Örva innlenda leikritun og aðra höfundavinnu og stuðla að aukinni samvinnu sviðslistamanna.

•    Stuðla að framþróun í greininni með því að leggja áherslu á faglega úrvinnslu og listræna framsetningu.

•    Efla leiklistaruppeldi með framboði á sýningum sérstaklega ætluðum börnum og ungmennum.

•    Efna til umræðna og verkefna á sviði leiklistar í samvinnu við skóla, félagasamtök og stofnanir.

•    Miðla leiklist um landið með leikferðum og samvinnuverkefnum.