Utan gátta

Sviðssetning
Þjóðleikhúsið

Sýningarstaður
Þjóðleikhúsið, Kassinn

Frumsýning
24. október 2008

Tegund verks
Leiksýning

Villa og Milla eru tvær kvenpersónur, innilokaðar. Þær eru á valdi einhvers sem við sjáum aldrei, en stjórnar kringumstæðum þeirra. Tvær saman eins og gamalt par, bundnar hvor annarri, eins og afbrýðisamar systur, börn í sandkassa. Þær eru stöðugt að leita leiða til að komast burt en geta engu treyst og sérstaklega ekki hvor annarri…

Með sínum einstæða húmor leiðir Sigurður Pálsson áhorfendur inn í heim þar sem rótað er upp í hugmyndum okkar um tilvist mannsins og möguleika leikhússins. Óvenjulegur, skáldlegur og fyndinn texti hefur sig á flug í meðförum afburðaleikara.

Sigurður Pálsson, handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2007, er eitt reyndasta leikskáld okkar, og er mikill fengur að nýju leikriti eftir hann. Hvort heldur sem ljóðskáld, prósahöfundur eða leikskáld hefur Sigurður í gegnum tíðina stöðugt verið að kanna nýjar lendur, um leið og hann hefur skapað sér einstakan stíl. Hann hefur í verkum sínum opnað okkur nýjar og óvæntar leiðir til að skynja veruleikann og öðlast nýja sýn.

Í Utan gátta heldur Sigurður í ferðalag, ásamt einvala liði listafólks, þar sem möguleikar leiklistarinnar eru kannaðir. Leikarar í sýningunni eru þau Kristbjörg Kjeld, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Arnar Jónsson og Eggert Þorleifsson. Gretar Reynisson, höfundur leikmyndar, er einn fremsti leikmyndahöfundur okkar og þrefaldur handhafi Grímuverðlaunanna.

Kristín Jóhannesdóttir er leikstjóri sýningarinnar, en hún hefur sýnt einstakt listfengi í leikstjórnarverkefnum sínum fyrir leikhús og kvikmyndir. Hún hefur einu sinni áður stjórnað leikriti eftir Sigurð Pálsson, Einhver í dyrunum á vegum Borgarleikhússins og Listahátíðar í Reykjavík árið 2000. Þess má geta að þeir Sigurður og Gretar taka nú upp þráðinn með samstarf sem hófst með Miðjarðarför árið 1983.

Höfundur
Sigurður Pálsson

Leikstjórn
Kristín Jóhannesdóttir

Leikarar í aðalhlutverkum
Arnar Jónsson
Eggert Þorleifsson

Leikkonur í aðalhlutverkum
Kristbjörg Kjeld
Ólafía Hrönn Jónsdóttir

Leikmynd
Gretar Reynisson

Búningar
Gretar Reynisson

Leikgervi
Árdís Bjarnþórsdóttir
Svanhvít Valgeirsdóttir

Lýsing
Halldór Örn Óskarsson

Hljóðmynd
Sigurður Bjóla

ImageImageImage