Rejúníon

Heiti verks
Rejúníon

Lengd verks
100 mínútur

Tegund
Sviðsverk

Um verkið
Júlía er ekta íslensk ofurkona sem gefur sig 110% í allt sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er eftirsóttur ferlafræðingur með eigið ráðgjafafyrirtæki en nýtt hlutverk hennar í lífinu hefur reynst henni krefjandi – móðurhlutverkið. Í stað þess að horfast í augu við erfiðleika sem fylgja nýja lífinu tapar hún sér í ferlagreiningu, bollakökubakstri og í hlutverki sínu sem Snapchatstjarna. Þegar óumflýjanlegar breytingar vofa yfir hjá fjölskyldunni, reynir hún að endurnýja tengslin við æskuvinukonu sína. Saman ætla þær að skipuleggja grunnskólarejúníon aldarinnar.

Sviðssetning
Verkið gerist á fimm plönum. Í nútímanum þar sem vinkonurnar Júlía og Hrefna hittast til að skipuleggja rejúníon, í skype símtölum Júlíu og Barkar, á Snapchatinu, í síendurtekinni ‘möntru’ Júliu um ferlafræðina og fyrir þremur árum þegar Júlía kæfir eigið fæðingarþunglyndi og skapar sér það öngstræti sem hún er nú stödd í,
Leikmyndin sem blasir við áhorfendum þegar sýning hefst eru pallar sem mynda tvær litlar eyjur sem ná ekki að tengjast voldugum miðjupalli. Bakveggurinn á þeim palli er í sömu stærðarhlutföllum og sími og gólfið eins og tískusýningarpallur. Þetta er lýsandi fyrir reynsluheim Júlíu sem nær ekki að tengjast manni og barni en flýr í staðinn inn í sjálfhverft snapchat og ímyndarsköpun.
Í sviðsetningu Lakehouse blöndum við saman realískum leik og listrænum næstum danskenndum útfærslum á líkamsbeitingu sem taka svo yfir eftir því sem tilfinningahitinn verður meiri í verkinu. Í hápunkti verksins er allur realismi horfinn. Vala Ómarsdóttir hreyfileikstýrir listillega sífelldri endurtekningu þar sem Júlía reynir að horfast í augu við sína mestu eftirsjá, þar sem hún skildi dóttur sína eftir eina eftir heima og maðurinn hennar kom að barninu í öndunarstoppi.
Límið í þessari flóknu samsetningu er tónlistin sem er öll leikin með kvenmannsröddum og raftónlist. Hlýjar vögguvísur og laglínur skiptast á við takta og poppandi smelli og túlka þannig andstæðurnar í lífi Júlíu.

Frumsýningardagur
30. nóvember, 2018

Frumsýningarstaður
Tjarnarbíó

Leikskáld
Sóley Ómarsdóttir

Leikstjóri
Árni Kristjánsson

Danshöfundur
Vala Ómarsdóttir

Tónskáld
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir

Hljóðmynd
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir

Lýsing
Halldór Örn Óskarsson

Búningahönnuður
Fiona Rigler

Leikmynd
Fiona Rigler

Leikarar
Orri Huginn Ágústsson

Leikkonur
Sólveig Guðmundsdóttir
Sara Marti Guðmundsdóttir

Vefsíða leikhóps/leikhúss eða aðrir tenglar
https://www.lakehousetheatre.com/