Faust

Faust

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur
Vesturport

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Stóra svið

Frumsýning
29. desember 2009

Tegund verks
Leiksýning

Faust er kominn á efri ár þegar hann uppgötvar að hamingjan verður ekki höndluð með lestri bóka eingöngu. Mefistó freistar hans og segist geta kynnt hann fyrir sannri hamingju í hinu ljúfa lífi skemmtunar og nautna. Faust tekur boðinu og handsalar veðmálið; finni hann hamingjuna undir handleiðslu Mefistós, þá eignast djöfullinn sál hans.

image-13

Í kjölfarið hefst ferðalag þeirra tveggja þar sem Mefistó sýnir hinum bóklærða Faust hvernig á að lifa lífinu, kynnir hann fyrir skrautlegu fólki, svallinu og lostanum. Veðmálið verður þó fyrst tvísýnt þegar Faust kynnist hinni hreinu, saklausu Grétu sem er dregin inn í eilífa baráttu góðs og ills.

image-14

Magnað verk um öflin sem takast á í manninum og heiminum, um hreina ást, sanna hamingju og eilífa leit. Sagan af Faust er aldagömul enda hefur fjöldinn allur af útgáfum verið sviðsettur, kvikmyndaður og sunginn. Þekktust er líklega leikrit Goethe. Aðrar útgáfur eru t.d. leikrit eftir Christopher Marlow og skáldsögur Thomas Mann, Doktor Faustus og Mikhail Bulgakov, Meistarinn og Margaríta. Fjörtíu ár eru síðan sagan um Faust fór síðast á leiksvið á Íslandi og því tímabært að nýjar kynslóðir fái að kynnast þessari mögnuðu sögu.

Höfundar
Björn Hlynur Haraldsson
Carl Grose
Gísli Örn Garðarsson
Nína Dögg Filippusdóttir
Víkingur Kristjánsson

Byggt á
Þjóðsögunni um Doktor Faustus

Leikstjóri
Gísli Örn Garðarsson

Leikarar í aðalhlutverkum
Hilmir Snær Guðnason
Þorsteinn Gunnarsson

Leikkona í aðalhlutverki
Unnur Ösp Stefánsdóttir

Leikarar í aukahlutverkum
Björn Hlynur Haraldsson
Jóhann Níels Sigurðsson
Rúnar Freyr Gíslason
Víkingur Kristjánsson

Leikkonur í aukahlutverkum
Hanna María Karlsdóttir
Nína Dögg Filippusdóttir
Svava Björg Örlygsdóttir

Leikmynd
Axel Hallkell Jóhannesson

Búningar
Filippía I. Elísdóttir

Leikgervi
Sigríður Rósa Bjarnadóttir

Lýsing
Þórður Orri Pétursson

Tónlist
Nick Cave
Warren Ellis

Hljóðmynd
Frank Hall
Thorbjörn Knudsen

image-12

Leikstjóri sýningarinnar er Gísli Örn Garðarsson og mætir hann hér aftur með sjálfan Nick Cave sér við hlið sem semur tónlist og söngtexta fyrir sýninguna ásamt Warren Ellis. Samstarf Borgarleikhússins, Gísla Arnar og félaga hans í Vesturporti hefur borið ríkulegan ávöxt enda hafa fyrri samstarfssýningar leikhúsanna ferðast víða um heim á undanförnum árum. Nægir þar að nefna Rómeó og Júlíu, Woyzeck og Kommúnuna.

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt  kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.