Eterinn

Sviðssetning
Þjóðleikhúsið í samstarfi við Þóri 

Sýningarstaður
Þjóðleikhúsið, Smíðaverkstæðið

Frumsýning
20. mars 2009

Tegund verks
Einleikur

Þórir Sæmundsson deilir með áhorfendum hugsunum sínum, sögum og vangaveltum um lífið, dauðann og lífið eftir dauðann. Í þessari sýningu ríkir mikil nánd við áhorfendur, en í sýningunni er um leið notast við áhrifamikla og nýstárlega margmiðlun hljóðs og mynda.

Klæðskerasniðin sýning fyrir Þjóðleikhúsið. Takmarkaður sætafjöldi. Þórir kom til starfa við Þjóðleikhúsið á liðnu ári og hefur stimplað sig rækilega inn sem leikari. Hann starfaði áður í Noregi þar sem hann lék ýmis hlutverk hjá norskum leikhúsum, sem og í kvikmyndum og sjónvarpi. Eter er fornt orð yfir „ljósvaka“ en orðið er upphaflega komið úr grísku og vísar, innan goðafræði Forn-Grikkja, til hreins lofts eða heiðs himins yfir dvalarstað guðanna. Ljósvaki er það efni sem talið var að fyllti rúmið milli hnatta og efnisagna en orðið hefur öðlast nýja merkingu í tengslum við nútímafjölmiðlla.

Ágætu leikhússunnendur.
Það er mér í senn ánægja og heiður að bjóða ykkur velkomin á þessa sýningu mína á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Ég treysti því að það sé ekki síst sameiginleg forvitni okkar um ókannaðar lendur leikhússins sem dregur okkur að þessari óvenjulegu sýningu, þó eðli málsins samkvæmt séum við að nálgast hana úr ólíkum áttum. Af ástæðum, sem ekki verða raktar hér, verður mínu mikilvægasta hlutverki í lífinu seint gerð skil í leikhúsi. Hvorki þessu né öðrum. Þó skortir mig hvorki ástríðu né virðingu gagnvart þessum stórkostlega miðli. Öðru nær.

Mér var hins vegar strax sem barni skapaður starfsrammi, ef svo má segja, sem lýtur í engu hefðbundnum lögmálum um verksvið, afköst og launakjör mannfélagsins. Og það er í því hlutverki sem ég birtist ykkur hér. Það að ég kalla þessa sýningu hvorki leikverk né leiksýningu helgast einfaldlega af því að ég er ekki að leika. Hér er ekkert handrit – bara minnispunktar og einstaka ljóðrænir prósar til upplestarar og nokkur heimatilbúin hljóð- og myndverk sem þeim tengjast. Ég stíg hér fram sem sá maður sem ég tel mig vera í þeim tilgangi að skila því erindi sem ég tel mig hafa við ykkur.

Ég þakka öllum sem hafa aðstoðað mig við að koma þessu á koppinn og þá ekki síst Þjóðleikhússtjóra Tinnu Gunnlaugsdóttur, sem sýndi mér fágætt traust með því að lána mér Smíðaverkstæðið, fyrst til nauðsynlegrar smíðavinnu og síðan sem vettvang þessarar sýningar. Megið þið njóta sem best.

Höfundur
Reinert Mithassel
Þorvaldur Þorsteinsson 

Leikstjóri
Reinert Mithassel 

Leikari í aðalhlutverki
Þórir Sæmundsson

Leikmynd
Carle Lange

Myndband
Tinna Lúðvíksdóttir

Lýsing
Hörður Ágústsson

Tónlist
Úlfur Eldjárn

Hljóðmynd
Úlfur Eldjárn