Flagari í framsókn

Sviðssetning
Íslenska óperan

Sýningarstaður
Íslenska óperan

Frumsýning
9. febrúar 2007

Tegund verks
Ópera

Óperan Flagari í framsókn eða The Rake’s Progress byggir á átta lítógrafíum eftir William Hogarth frá árunum 1733-1735, sem lýsa falli hins unga Tom Rakewell. Óperan var frumsýnd í Feneyjum árið 1951 og hefur síðan þá verið sýnd reglulega víða um heim, en þetta er í fyrsta sinn sem að verkið er sett upp á Íslandi.

Óperan hefst þar sem ungur maður Tom Rakewell er að trúlofast Anne Trulove þrátt fyrir að faðir hennar hafi áhyggjur af því hvernig Tom ætlar að sjá fyrir henni. Tom vill láta slag standa og teysta á að heppnin verði sér hliðholl. Þá birtist Nick Shadow sem tjáir honum að hann hafi erft allmikil auðæfi eftir óþekktan frænda og býðst til að gerast þjónn hans.

Tom bítur á agnið en vegferð hans liggur eftir það til glötunnar þar sem freistarinn í líki Nicks kynnir hann fyrir heimsins löstum og sífellt hallar undan fæti. Nick fær hann til að kvænast skeggjuðu konunni Böbu aðeins til að skemmta skrattanum. En Anne hefur aldrei hætt að elska hann og að lokum finnur hún hann á geðveikarahæli og hann heldur sig vera Adonis og hún sé Venus. Hún syngur hann í svefn og yfirgefur hann síðan hljóðlega og þegar hann verður var við að hún er farin þá deyr hann.

Gunnar Guðbjörnsson, tenór, syngur hlutverk flagarans, Tom Rakewell en hin saklausa og hreina Anne Trulove er sungin af Huldu Björk Garðarsdóttur, sópran. Í hlutverki djöfulsins, Nick Shadow, er Ágúst Ólafsson, baritón og Jóhann Smári Sævarsson, bassi, syngur hlutverk föður Anne. Ingveldur Ýr Jónsdóttir, mezzósópran, syngur hlutverk hinnar skeggjuðu Böbu sem Tom giftist á vegferð sinni. Sigríður Aðalsteinsdóttir, mezzósópran, syngur hlutverk Mother Goose, sem er eigandi hóruhúss í London þangað sem Tom leggur leið sína. Eyjólfur Eyjólfsson, tenór, syngur hlutverk Selims uppboðshaldara sem sér um að selja allar eigur Toms þegar allt er komið í óefni.

Höfundur
Igor Stravinsky

Leikstjóri
Halldór E. Laxness

Leikmynd
Axel Hallkell Jóhannesson

Búningar
Filippía Elísdóttir

Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson

Söngvarar
Gunnar Guðbjörnsson
Hulda Björk Garðarsdóttir
Ágúst Ólafsson
Jóhann Smári Sævarsson
Eyjólfur Eyjólfsson
Sigríður Aðalsteinsdóttir
Ingveldur Ýr Jónsdóttir

Danshöfundur
Ástrós Gunnarsdóttir